Félagsfælni er ein algengasta kvíðaröskunin. Gunnhildur Sveinsdóttir sálfræðingur skrifaði grein um félagsfælni í Stundina sem vakti athygli okkar. Að fara á staði þar sem margir eru, stórar veislur, samtöl við yfirmenn, eða bara samtöl yfir höfuð, að halda fyrirlestur eða að borða í almenningsrými eru dæmi um aðstæður sem geta valdið miklum kvíða hjá þeim sem glíma við félagsfælni. Gunnhildur kom í þáttinn í dag og fræddi okkur um félagsfælni, félagskvíða og mögulegar leiðir til að draga úr þeim.
Við fengum til okkar Önnu Rósu grasalækni, en hún mun leiða lækningajurtagöngu í Viðey á sunnudaginn. Í Viðey vaxa fjölmargar lækningajurtir Anna Rósa mun segja frá áhrifamætti helstu lækningajurta sem þar vaxa, og leiðbeina með tínslu þeirra og þurrkun. Við fengum Önnu Rósu í þáttinn til að segja okkur frá.
Súkkulaði hjá Mika, rúgbrauð í fernu frá Sigrúnu Ernu, jarðaber, hindber og brómber hjá DAGA og tómatar í Friðheimum - við kynnumst dásemdum Reykholts í Bláskógarbyggð í þættinum í dag þegar Margrét Blöndal fór á Sælkerarölt um þorpið. En í sumar verður boðið upp á slíkar göngur alla föstudaga klukkan 11, gestum að kostnaðarlausu. Margrét fór og fékk að smakka á alls kyns góðgæti sem við heyrðum meira af í þættinum. Hún talaði við ferðamálafulltrúa Uppsveitanna Ásborgu Arnþórsdóttur.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON