Laugarnesskóli fékk nýlega Minningarverðlaun Arthurs Morthens fyrir fjölbreytt skólastarf og síðasta vor fékk skólinn fyrstur grunnskóla í borginni Regnbogavottun Reykjavíkur sem hinseginvænn vinnustaður. Í röksemdum dómnefndar kemur fram að skólinn fylgir stefnu um skóla án aðgreiningar og er hún samofin öllu daglegu skólastarfi í Laugarnesskóla. Mikill sveigjanleiki er í starfi með nemendur og áhersla er lögð á sérkennslu og snemmtæka íhlutun í 1. og 2. bekk til að styrkja nemendur bæði í námi og félagslega. Umhyggjustig skólans er hátt, hvort sem er gagnvart nemendum eða starfsfólki. Björn Gunnlaugsson aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla og Sigríður Heiða Bragadóttir skólastjóri komu til okkar.
Það er Ásu þáttur Baldursdóttur í dag en Ása er hjá okkur annan hvern miðvikudag og fer yfir það helsta og mest spennandi á hlaðvarps og streymisveitum og í dag talaði hún um hamingjuna, gamanþætti fyrir þreytta innilokaða foreldra og norrænt glæpasjónvarp á Viaplay streymisveitunni.
Við forvitnuðmst um Hversdagssafnið á Ísafirði en þar er safnað og miðlað menningu hins daglega lífs í gegnum frásagnalist, sjón- og hljóðræna miðla. Aðstandendur safnsins búa til sýningar og verkefni sem eru byggðar á djúpviðtölum og nú fyrir stuttu hlaut safnið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Við slógum á þráðinn til Bjargar Elínar Sveinbjörnsdóttur, forstöðumanns Hversdagssafnsins.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG ÞORGERÐUR ÁSA AÐALSTEINSDÓTTIR