Hinn 31 árs gamli borgarfulltrúi Egill Þór Jónsson greindist með stóreitilfrumukrabbamein í sumar og er búin að ganga í gegnum eina krabbameinsmeðferð. Hann var vongóður um framhaldið en fékk þær fréttir í síðustu viku að hann er aftur komin með krabbamein og bíður nú frekari rannsókna og framundan er meðferð sem læknar hans kalla fallbyssumeðferð. Egill er 31 árs , á unnustu og síðasta sunnudag bættist barn númer tvö í fjölskylduna en fyrir eiga þau 2ja ára gamlan son. Við ræddum við Egil í dag.
Jón Ólafsson tónlistarmaður kom svo til okkar til þess að segja okkur frá nýja sjónvarpsþættinum sem hann stýrir, Jólin koma. Þar fær hann tvo sönggesti til sín í hvern þátt til þess að syngja með sér inn jólastemmninguna. Við ræddum reyndar fyrst við Jón um nýju þættina The Beatles, Get Back, þar sem Jón er einn helsti aðdáandi Bítlanna. Hann, eins og við, er talsvert snortinn yfir þessari innsýn sem áhorfendur fá inn í þessa mögnuðu hljómsveit, en tónlist þeirra er enn sprelllifandi meira en hálfri öld eftir að hljómsveitin hætti. Jón sagði okkur svo frá þessum nýju jólaþáttum sem er á föstudögum á RÚV og svo forvitnuðumst við um þær jólahefðir sem Jón og fjölskylda hans halda.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON