Föstudagsgestur þáttarins í þetta sinn var Rut Einarsdóttir, ný framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands. Hún hefur átt vægast sagt áhugaverðan feril, en hún fór í háskóla í Japan og lærði viðskiptafræði og japönsku. Svo hefur hún ferðast víða um heim, til fjölda landa í Asíu, Afríku og Evrópu þar sem hún hefur sótt ráðstefnur, unnið að margvíslegum verkefnum, tengdum loftslagsmálum, sorphirðu, réttindabaráttu ýmiskonar, friðarmálum og borgaralega vitund. Hún hafði verið í stjórn Kvenréttindafélagsins í tvö ár áður en hún gerðist núna framkvæmdastýra félagsins. Það var um nóg að tala við Rut í þættinum í dag.
Í matarspjalli dagsins fengum við Albert Eiríksson, besta vin besta vinar bragðlaukanna. Hann hefur undanfarna viku verið að deila uppskriftum að úkraínskum réttum á facebook og á síðunni sinni www.alberteldar.is. Við fengum að vita hvaða matur og réttir eru þekktastir frá Úkraínu og hvaðan hann fékk uppskriftirnar í matarspjallinu í dag.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG SIGURLAUG MARGRÉT JÓNASDÓTTIR