Samsæriskenningar eru ekki nýjar af nálinni, þær hafa líklegast fylgt mannkyninu megnið af okkar vegferð. En í heimi veraldarvefsins og samfélagsmiðla þá hefur líklega aldrei verið auðveldara að miðla upplýsingum og slíkum kenningum. En hvað er eiginlega samsæriskenning og hafa þær aukist á undanförnum árum, til dæmis á tímum Covid, Brexit og Donalds Trump? Og skera samsæriskenningar á Íslandi sig úr, eða eru þær á svipuðum slóðum og í öðrum löndum? Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur og dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands er ein þeirra sem unnu fjölþóðlega rannsókn um samsæriskenningar og hverjir aðhyllast þeim og hún kom til okkar í dag og fræddi okkur um samsæriskenningar.
Á laugardaginn er óperan Don Pasquale eftir Gaetano Donizetti frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum. Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum, þau vilja miklu frekar taka þær fram, hrista af rykið og leika sér að þeim. Pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þetta er hópur ungs fólks sem vill endurlífga óperuformið gagnvart almennum áhorfendum. Sólveig Siguðardóttir söngkona og þýðandi óperunnar og Ragnar Pétur Jóhannsson söngvari komu í þáttinn.
Svo kom Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur til okkar í dag í veðurspjall. Það er engin lognmolla í veðrinu hér á fróni frekar en yfirleitt á þessum árstíma. Við ræddum þessa snörpu lægð sem gekk hratt yfir landið síðastliðinn sólarhring, sprengilægðir og þrjár lægðir sem eru fyrirsjáanlegar á næstu dögum.
Tónlist í þættinum í dag:
Barn / Ragnar Bjarnason (Ragnar Bjarnason og Steinn Steinarr)
New York / Frank Sinatra (John Kander, Fred Ebb)
My Island / Red Barnett (Haraldur V. Sveinbjörnsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR