Savanna tríóið fagnar 60 ára afmæli í ár, en meðlimir hljómsveitarinnar voru Björn G. Björnsson, Troels Bendtsen og Þórir Baldursson. Eftirfarandi texti var skrifaður af Jóni Sigurðssyni aftan á fyrstu hljómplötu sveitarinnar: Snemma á árinu 1962 tóku þrír ungir menn, Troels Bendtsen, Björn Björnsson og Þórir Baldursson að æfa saman söng sem nú er orðinn landskunnur. Þeir höfðu litla reynslu en viljann vantaði ekki, og hafa þeir á þessum skamma tima sungið sig inn í hjörtu Íslendinga, ungra sem gamalla. Þegar í byrjun hneigðist hugur þeirra að íslenzkum þjóðlögum, enda er þar um auðugan garð að gresja. Þetta er fyrsta hljómplatan sem þeir syngja inn á og ef dæma skal eftir góðri meðferð þeirra á þessum lögum, áreiðanlega ekki sú síðasta. Björn G Björnsson og Troels Bendtsen komu og rifjuðu upp með okkur sögu hljómsveitarinnar í þættinum í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Jakob Smári Magnússon bassaleikari. Hann hefur spilað með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðina, Tappa tíkarrassi, Síðan skein sól, Das Kapital og miklu fleiri, auk þess að hafa spilað út um allan heim með hljómsveit tónlistarmannsins John Grant. En við fengum í dag að vita hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Það er óhætt að segja að Þórarinn Eldjárn hafi verið fyrirferðamikill hjá Jakobi, því hann segist nánast bara lesa bækur eftir Þórarinn, en hann nefndi þó líka Tinna bækurnar sem höfðu mikil áhrif á hann í æsku og svo aftur óvænt í kringum síðustu aldamót.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON