Sérfræðingur Mannlega þáttarins í dag var Sigríður Birna Valsdóttir ráðgjafi hjá Samtökunum?78. Hún hefur í sínu starfi sinnt ráðgjöf fyrir ungt transfólk, kynsegin og hinsegin og aðstandendur. Samtökin hafa heimsótt starfsfólk skóla og annarra vinnustaða og frætt það um hinsegin og kynsegin málefni, og málefni transbarna og ungmenna. Við fengum Sigríði Birnu til að segja okkur frá sínu starfi og hvernig umræðan um hinsegin málefni hefur breyst í gegnum tíðina. Í seinni hluta þáttarins svaraði Sigríður Birna svo spurningum sem hlustendur hafa sent til okkar í pósthólf þáttarins
[email protected]. Til dæmis spurningar eins og geta börn vitað að þau eru trans? Er ekki gott að bíða þar til þau eru eldri? Hvað er kynsegin? Geta börn verið kynsegin? Er möguleiki fyrir 10/11 ára gamalt barn að vita að það er non-binary? Þessum spurningum og fleirum svaraði Sigríður Birna í þættinum.
Á Íslandi er til sérstakt félag til heiðurs þýska tónskáldinu Wagner, Wagnerfélag Íslands en í því eru um 200 manns. Á morgun verða sérstakir Wagner tónleikar í Salnum í samvinnu söngvara og félagsins og við fengum þær Selmu Guðmundsdóttur frá Wagnerfélaginu og Margréti Hrafnsdóttur sópransöngkonu í þáttinn í dag til að segja okkur nánar frá.