Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var einn ástsælasti handknattleiksmaður þjóðarinnar. Hann átti langan og farsælan feril sem leikmaður, fyrir hin ýmsu félagslið, á Íslandi og erlendis og með landsliðinu þar sem hann skemmti áhorfendum með mörkum í öllum regnbogans litum. Númerið 13 var á treyjunni hans og alltaf var stutt í brosið og léttleikann. Þetta er að sjálfsögðu Sigurður Sveinsson, sem kom í þáttinn í dag og ræddi handboltann, ferilinn, þátttöku í stórmótum og íslenska landsliðið á EM.
Matarspjallið var á sínum stað og í fjarveru Sigurlaugar var Albert Eiríksson boðin og búin að hlaupa í skarðið. Hin svokölluðu Pálínuboð eða Potluck party þekkja margir. Það eru boðin þar sem gestir koma með veitingarnar, allir bjóða öllum til veislu. Þetta form er stórfínt og hentar víða, það eykur fjölbreytni og minnkar fyrirhöfnina fyrir þann sem opnar húsið sitt. Slík kaffiboð eru líka vel þekkt, einnig grillveislur, afmæli, fermingarveislur, brúðkaup og erfidrykkjur svo eitthvað sé nefnt. En það eru nokkrar reglur í svona Pálínuboðum sem ber að virða, við fórum yfir þetta með Alberti í þættinum og einnig huguðum við að fermingarundbúningi en það er að mörgu að huga varðandi fermingarundirbúning og fermingarveislur. Skipulagið er mikilvægt og allur undirbúningur.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON