Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Sigurjón Kjartansson. Hann er auðvitað annar helmingurinn af Tvíhöfða, útvarpstvíeykinu. Hann var í grínþáttunum Fóstbræðrum frá upphafi, en þeir þættir eiga aldafjórðungsafmæli um þessar mundir. Hann er tónlistarmaður, var t.d. í hljómsveitinni goðsagnakenndu HAM. Hann hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpsefni og svo hefur hann skrifað og framleitt sjónvarpsefni, eins og til dæmis Ófærðarseríurnar og miklu fleira og er einn höfunda Skaupsins í ár. Við fórum með honum aftur í tímann, hann rifjaði upp æskuna og uppeldisárin, bæði í Reykholti og á Ísafirði og svo röktum við okkur í gegnum lífið til dagsins í dag, tónlistina, grínið, útvarpsþættina og svo handritsskrifin og verkefnin framundan.
Í matarspjallinu í dag var svo víða komið við í fjarveru Sigurlaugar Margrétar. Frönsk súkkulaðikaka, panna cotta, chili con carne og matarlím svo dæmi séu tekin.
Tónlist í þættinum í dag:
Glugginn / Flowers (Rúnar Gunnarsson og Þorsteinn Eggertsson)
Stuðlagið um Sigurrós / Tvíhöfði (Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr)
Voulez-vous / Abba (Benny Andersson og Björn Ulvaeus)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR