Þjálfarinn og fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Kristinn Aron Hjartarson, sem verður 39 ára í desember, er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Þar ræðir hann opinskátt um veðmálafíkn sem tók yfir líf hans um árabil, meðferðina sem varð vendipunktur árið 2020 og hvernig hann hefur síðan lifað edrú lífi — bæði frá veðmálum og áfengi.
Kristinn lýsir spilafíkn sem manískri þráhyggju sem fylgir mikil skömm, lygar og fjárhagslegt hrun. Sjálfsvígstíðni meðal spilafíkla er með þeirri hæstu í heiminum.Vandamálið er líka hvað þetta er samþykkt. Kristinn bendir á að veðmál séu orðin allsráðandi í íslensku samfélagi; rapparar, útvarpsmenn, hlaðvarpsstjórnendur, áhrifavaldar og fleiri þekktir menn og fyrirmyndir ungra drengja eru að auglýsa veðmál í miklum mæli.
Í viðtalinu gagnrýnir Kristinn slíka aðila en líka fyrirtækin sem styrkja þessa menn samhliða veðmálafyrirtækjunum. Hann segir að það sé tvennt í stöðunni að hans mati; að annað hvort loka alfarið á veðmálasíður eða opna markaðinn undir ströngu regluverki og nota skatttekjurnar í öflugt meðferðarúrræði.