Sviðslistakonan Íris Stefanía Skúladóttir hefur fjallað mikið um kynveru kvenna og sjálfsfróun í verkum sínum og þessa dagana er hún á ferðinni vopnuð upptökutæki og ræðir við eldri konur um kynlíf, unað, þrár, tabú, skömm og allt það sem konur hafa þurft að glíma við í tengslum við kynlíf í gegnum tíðina. Afrakstur hennar rannsóknarvinnu verður kynntur til sögunnar næstu þrjá laugardaga kl.14 í Útvarpsleikhúsinu. Íris kom í þáttinn í dag.
12.janúar voru liðin 190 ár upp á dag frá því að síðasta aftakan fór fram á Íslandi. Þá lét Björn Blöndal sýslumaður hálshöggva þau Agnesi Magnúsdóttur og Friðrik Sigurðsson. Magnús ólafsson fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum í Vatnsdal gjörþekkir þessa örlagasögu. Hann hefur á undanförnum árum farið með gesti í hestaferðir um sögusvið Illugastaðamorðanna, og sagt söguna þar sem atburðirnir gerðust. Magnús frumsýndi frásögnina Öxin,Agnes og Friðrik á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi nákvæmlega þegar 190 ár upp á klukkutíma voru liðin frá aftökunni. Fjölskylda Magnúsar tengist þessum voða atburðum persónulega. Magnús sagði frá í þættinum í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Þorbjörg Matthíasdóttir, bókmenntafræðingur og bókavörður í Borgarholtsskóla. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON