Í bók sinni, Korngult hár, grá augu, fjallar Sjón um Gunnar Kampen, ungan mann sem elst upp í vesturbæ Reykjavíkur í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann stofnar andgyðinglegan stórnmálaflokk og tekur þátt í að breiða út boðskap nýnasista. En hvað varð til þess að hann fór inn á þær brautir? Sjón kom í þáttinn í dag og við spjölluðum við hann um einmitt það. Við fengum að vita að hverju hann komst að við að skrifa þessa bók og í gegnum þá rannsóknarvinnu sem hann vann fyrir hana.
Í gömlu bakhúsi í miðbænum á Akureyri leynist Ómur - Jóga og gongsetur. Þar er boðið upp á fjölbreytta jógatíma og á vefsíðu þeirra stendur að það sé þeirra hjartans ósk að þetta sé staður þar sem allar sálir geti lært, vaxið og fengið stuðning til að upplifa jákvæða breytingu í eigin lífi. Við fengum stofnanda Óms, hana Arnbjörgu Kristínu Konráðsdóttur jógakennara, til okkar í hljóðverið á Akureyri og hún sagði okkur frá starfseminni, jóga og leyndardómum gongsins.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Júlían Jóhann Karl Jóhannson, kraftlyftingarmaður og nýkjörinn íþróttamaður ársins. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrift á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN GÍGJA HÓLMGEIRSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON