Sjónlýsingar eru þjónusta við blinda og sjónskerta sem gefur ítarlegri mynd af því sem er að gerast í umhverfinu. Sjónlýsingar má nota við næstum allar tegundir viðburða; íþróttaleiki, sjónvarpsefni, bíómyndir, leikrit, listasýningar eða hvaðeina. Góð sjónlýsing gefur áhorfendanum betri heildarmynd af því sem er að gerast og einnig upplýsingar um hvað hugsanlega er að gerast í bakgrunni, ef það er mikilvægt fyrir söguþráðinn. Sjónlýsing getur því opnað nýjan heim fyrir áhorfendum sem eru t.d. hætt að geta fylgst með sjónvarpi, eða í leikhúsi, þegar þau sjá ekki lengur hvað er að gerast. Baldur Snær Sigurðsson, tækniráðgjafi Blindrafélagsins, kom í þáttinn og sagði okkur nánar frá sjónlýsingum.
Héðinn Sveinbjörnsson ber hinn óviðjafnanlega titil aðalhamingjustjóri og er meðlimur í samtökum sem kalla sig Chief Happiness Officers. Héðinn kom í viðtal í Mannlega þáttinn í ágúst síðastliðnum og sagði okkur frá þessum samtökum, sem stuðla að því að starfsfólk upplifi hamingju á vinnustaðnum, finni tilgang og að það sé metið að verðleikum. Hann sagði okkur þá frá því að verið væri að safna gögnum um hamingju vinnandi fólks á alþjóðavísu og í dag kom hann aftur í þáttinn og kynnti einmitt niðurstöður þessarar könnunar.
Við forvitnuðumst að lokum um málörvunarforritið Orðalykill. Það er gagnvirkt forrit sem kennir undirstöðuþætti lesturs og læsis og er afsprengi nýsköpunarfyrirtækisins Mussila. Við höfum fjallað talsvert í þættinum um hættuna sem steðjar að íslenskunni og íslenskukunnáttu yngri kynslóðanna nú á tímum snjalltækja, youtube og tik tok þar sem nánast öll afþreying er á ensku og þær áskoranir sem fylgja svo íslenskukunnáttu hraki ekki enn meira í kjölfarið. Orðalykill er einmitt lestrar- og málörvunarforrit og Jón Gunnar Þórðarson frá Musilla kom í þáttinn og sagði okkur betur frá.
Tónlist í þættinum í dag:
Afróbít / Samúel Jón Samúelsson Big Band (Samúel Jón Samúelsson)
Bíólagið / Stuðmenn (Texti Egill Ólafsson, lag Valgeir Guðjónsson )
Hamingjan er hér / Jónas Sigurðsson (Jónas Sigurðsson)
Orðin mín / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Bragi Valdimar Skúlason)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MELKORKA ÓLAFSDÓTTIR