Sólveig Aðalsteinsdóttir, myndlistarkona, segist dragast að því sem vekur hjá okkur tilfinningu fyrir hinum stóra tíma. Þannig afhjúpar útlistaverkið hennar Streymi tímans til dæmis fyrir okkur jökulsorfnar klappir og minnir á smæð okkar í jarðsögulegu samhengi. Í verkum sínum umbreytir Sólveig gjarnan hversdagslegum hlutum á fínlegan og næman hátt, þannig að úr verða ljóðrænir skúltúrar, verk sem fá okkur til að endurhugsa hvernig við skynjum og skiljum umhverfi okkar og tilveru. Sólveig Aðalsteinsdóttir hlaut nýverið Gerðarverðlaunin, verðskuldaða viðurkenningu fyrir ríkulegt framlag sitt til höggmyndalistar, og hún er gestur Víðsjár í svipmynd dagsins.