Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Sólveig Arnarsdóttir leikkona. Hún er nýstigin úr hlutverki Lafði Macbeth á sviði Borgarleikhússins og leikur nú Jackie Kennedy í leikritinu Prinsessuleikarnir eftir Nóbelsskáldið Elfriede Jelinek í þýðingu Bjarna Jónssonar og leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. Sólveig er nátengd leikhúsinu frá því hún man eftir sér, enda eru foreldrar hennar Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri og Arnar Jónsson leikari. Sólveig hóf að leika sjálf ung og við fengum hana í dag til að segja okkur frá æskunni og uppvextinum, fyrstu skrefunum í leiklistinni, námsárunum og ferlinum í Þýskalandi þar sem hún hefur leikið á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Og svo sagði Sólveig okkur auðvitað frá þessu nýjasta verkefni sem hún frumsýnir eftir viku.
Í matarspjalli dagsins var rasp til umræðu. Það er hægt að elda ýmislegt með brauðraspi, það eru til ýmsar útfærslur á raspinu sjálfu og meira að segja hvort á að segja rasp eða raspur og við einmitt ræddum það með Sigurlaugu Margréti í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Heroes / David Bowie (David Bowie & Brian Eno)
Endurfundir / Upplyfting (Sigfús E. Arnþórsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON