Fyrir tveimur árum undrirrituðu fjögur grasrótarfélög á sviði sorgarúrvinnslu viljayfirlýsingu um stofnun Sorgarmiðstöðvar. Félögin eru: Ný dögun, Birta, Ljónshjarta og Gleym mér ei. Fólk var sammála um að bæta þyrfti þjónustu við syrgjendur, því sú aðstoð sem byðist væri of dreifð, ómarkviss og af ýmsu tagi. Æskilegast væri að koma upp miðstöð þar sem syrgjendur og aðrir gætu gengið að upplýsingum og þjónustu á einum stað, með símtali, heimsókn eða á vefsíðu. 12. september 2019 tók Sorgarmiðstöð svo formlega til starfa í Lífsgæðasetri St. Jósepsspítala í Hafnarfirði um leið og heimasíðan var opnuð. Þær Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir og Ína Ólöf Sigurðardóttir komu í þáttinn.
Svo var það Heimur ostanna, í dag fengum við fjórða þáttinn í smáþáttaröðinni og í dag fjölluðu þau Svavar Halldórsson og Eirný Sigurðardóttir um Camenbert, Brie og aðra hvítmygluosta. Hvaðan þeir koma, hvað einkennir þá og hvernig er best að njóta þeirra?. Ostaunnendur og sælkerar leggið við hlustir.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR