Sífellt fleiri aðhyllast sorplausan lífsstíl og hreyfingin í kringum hugmyndafræðina stækkar á hverjum degi. Langflest vilja lifa vistvænni lífsstíl en eiga erfitt með að finna auðveldar leiðir til þess umfram það að flokka sorp til endurvinnslu. Við fengum Þóru Margréti Þorgeirsdóttur í þáttinn í dag, en hún hefur í mörg ár haldið úti síðunni Minna sorp á netinu, þar sem hún deilir reynslu fjölskyldu sinnar í að vera ábyrgir neytendur. Þóra þýddi einnig bókina Zero Waste eftir Bea Johnson, sem er nýkomin út, en Bea hélt fyrirlestur hér á landi um helgina og við fengum Þóru til að segja okkur frá sorplausum lífsstíl sem snýr að mestu leyti um að minnka neyslu.
Andlegahliðin er í forgrunni á Rás 1 í janúar. Því fengum við í hljóðverið á Akureyri tvo skólasálfræðinga sem sögðu okkur frá andlegri líðan framhaldsskólanema, en mikið brottfall úr framhaldsskólum hefur meðal annars verið tengt slæmri geðheilsu ungmenna hér á landi. Jóhanna Bergsdóttir, skólasálfræðingur í Verkmenntaskólanum á Akureyri, og Kristín Elva Viðarsdóttir, skólasálfræðingur í Menntaskólanum á Akureyri komu í þáttinn.
Eitt þeirra fjölmörgu starfa sem unnin eru í sveitum landsins er að rýja féð - sem áður fyrr var gert á vorin áður en rekið var á fjall. Nú er féð rúið tvisvar á ári - seint á haustin og aftur snemma á vorin. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, fór í lok nóvember og hitti rúningsmennina Ragnar Bragason á Heydalsá og Reyni í Gröf þar sem þeir kepptust við að rýja fé Haraldar bónda a Stakkanesi.
UMSJÓN GÍGJA HÓLMGEIRSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON