Við fræddumst um áhugavert verkefni í þættinum í dag, Stattu með sjálfri þér ? virkni til farsældar. Markmið verkefnisins til tveggja ára eru að þátttakendur, konur sem búa við örorku og eru með börn á framfæri, fái bætt sjálfsmynd sína og aukna trú á eigin getu; að þær styrki tengslanet sitt til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og eflist í foreldrahlutverkinu. Við ræddum við Lillý Alleta, eina af þeim mæðrum sem taka þátt í verkefninu og Júlíu Margréti Rúnarsdóttur félagsráðgjafa í þættinum.
Forseti Íslands mun á morgun veita þeim unga Íslendingi sem þykir hafa skarað fram úr á þessu ári verðlaun, en þetta verður tuttugasta árið í röð sem JCI á Íslandi stendur fyrir því að velja Framúrskarandi ungan Íslending. Tíu framúrskarandi einstaklingar fá viðurkenningu en eitt þeirra fær svo aðalverðlaunin. Við fengum Guðlaugu Birnu Björnsdóttur verkefnastjóra hjá JCI á Íslandi í þáttinn til þess að segja okkur frá þessum verðlaunum frá öllum hliðum.
Á Sprengisandi, Ég lít í anda liðan tíð, Ísland ögrum skorið og mörg önnur lög samdi Sigvaldi Kaldalóns og öll hafa þau glatt, og kannski líka huggað, okkur í flutningi bæði einsöngvara og kóra síðan þau voru gefin út. En Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti einmitt í sumar Sigvalda Snæ Kaldalóns sem kynnt hefur sér sögu útgáfu laga afa hans tónskáldsins Sigvalda Kaldalóns.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON