Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival & Industry Days er haldin í sjöunda sinn þessa daganna og stendur til 30.maí í Bíó Paradís. Markmið Stockfish er að efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Á hátíðinni eru sýndar yfir 20 sérvaldar alþjóðlegar verðlaunamyndir. Marsibil Sæmundsdóttir er framkvæmdastjóri Stockfish og hún kom í þáttinn í dag.
Arnhildur Anna Árnadóttir er 28 ára gömul og hefur bæði æft og keppt í kraftlyftingum frá því árið 2012. Hún er aðalþjálfari lyftingadeildar Stjörnunnar og við ræddum við hana í þættinum í dag um mikilvægi styrktarþjálfunar.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Hún er námssálfræðingur, fyrrverandi borgarfulltrúi og núverandi framkvæmdastjóri Köru Connect. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON