Streita verður í brennidepli á sérstakri ráðstefnu 2.nóvember en streita hefur mikil áhrif á líf okkar, bæði jákvæð og neikvæð. Það hefur sýnt sig að því betur sem við skiljum streituna því betur þolum við hana. Margvísleg heilsufarsvandamál, bæði andleg og líkamleg, eru vel þekktar afleiðingar langvarandi streitu en hins vegar er margt sem við getum sjálf gert til að takast betur á við áskoranir lífsins og þar með þolað álag betur og náð jafnvægi í lífsstíl.
Markmiðið að hvetja konur og karla á öllum aldri að huga vel að eigin heilsu, bæði andlegri og líkamlegri. Gyða Dröfn Tryggvadóttir kom í þáttinn í dag.
Í gær var alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar, og við ætlum að nota tækifærið og fræðast um starf iðjuþjálfara, en til okkar komu þær Bjargey Ingólfsdóttir og Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, og þær sögðu frá mikilvægi iðju í daglega lífi og heilsu- og stuðningsvörum fyrir fólk með stoðkerfisvanda.
Lesandi vikunnar var Júlía Margrét Einarsdóttir rithöfundur. Hún sagði okkur frá því hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON