Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir, sem er með Streituskólann, kom í þáttinn í síðustu viku og gaf góð ráð hvað varða streitu á þessum tímum og bara almennt. Við báðum hlustendur um að senda okkur spurningar eða hugleiðingar sem þau vildu fá Ólaf til þess að svara eða tala um og við fengum nokkrar slíkar. Við heyrðum því aftur í Ólafi Þór í dag og fengum að vita hvaða svör og ráð hann gaf. Eins bendum við hlustendum á að send inn spurningar til Ólafs aftur fyrir næstu viku í tölvupósthólf okkar,
[email protected], sem hann getur þá svarað í næstu viku.
Og svona til að létta lundina á þessum fimmtudegi, fórum við í gegnum nokkra þætti af skemmtiþáttunum gömlu góðu Úllen Dúllen Doff en þeir eru geymdir hér í safni Útvarpsins og voru óhemjuvinsælir á áttunda áratugnum. Edda Björgvins, Gísli Rúnar Jónsson,Júlíus Brjánsson,Randver Þorláksson og Jónas Jónasson mynduðu þennan magnaða hóp og í þessum þáttabrotum frá árinu 1978, sem við klipptum saman, má heyra í Fríðu Arnljóts fegurðardrottningu Íslands og brunavarnarsérfræðingi frá Eldibrandaflokknum í Færeyjum,Túrillu Júhansson.
Flestar starfsstéttir hafa orðið fyrir áhrifum af þessu ástandi sem við erum öll að ganga í gegnum þessa dagana. Við heyrðum í gær hvernig sjúkraþjálfarar glíma við þessar aðstæður og í dag ætlum við að heyra frá annarri starfsstétt, sálfræðingum. Margrét Ingvarsdóttir, meðstjórnandi og ritari í Félagi sjálfstætt starfandi sálfræðinga var gestur okkar í þættinum í dag og veitti okkur innsýn inn í þeirra starf á þessum skrýtnu tímum.