Við fengum Salbjörgu Á Bjarnadóttur, geðhjúkrunarfræðing, í þáttinn í dag til þess að fræða okkur um álagið sem fjölskyldur langvarandi veikra barna og barna með fötlun búa við. Hún hefur skoðað hvaða áhrif það hefur á systkini þegar plön breytast þegar veika barnið fer á sjúkrahús og/eða þarf mikla þjónustu alla daga frá foreldrum og fagfólki. Þegar allar áætlanir fjölskyldunnar breytast og annað foreldrið eða jafnvel báðir þurfa að hætta í skóla eða vinnu, stundum tímabundið en oftar til lengri tíma, þar sem umönnunarþörf barnsins tekur allan þeirra tíma og orku. Oft eru önnur börn á heimilinu og þeirra þörfum þarf einnig að mæta. Því þarf að auka þekkingu og yfirsýn fagaðila á aðstæðum systkina og aðstoða þau við þær áskoranir sem þau takast á við daglega er varðar væntingar til fjölskyldulífs, vina, stuðning í skóla og tómstundastarfs. Salbjörg sagði okkur meira frá þessu í dag.
Framundan er Eurovisionkeppnin og í Söngvakeppnishöllinni sem staðsett er í Kvikmyndaverinu Gufunesi fer Söngvakeppni Sjónvarpsins fram. Þar verður mikið um að vera næstu vikurnar, fjórir stórir viðburðir, tvær undankeppnir, generalprufa og svo lokakvöldið sjálft þar sem keppt verður til úrslita. Rúnar Freyr Gíslason er verkefnisstjóri hjá Sjónvarpinu og hefur unnið við undirbúning í heilt ár. Hann sagði okkur í dag nánar frá keppninni í ár.
Við fengum póstkort í dag frá Magnúsi R. Einarssyni. Það hefur verið vindasamt í Eyjum þar sem Magnús býr um þessar mundir. Hann hefur því legið í bókum og sjónvarpsglápi undanfarna daga. Hann hefur verið að lesa um Tyrkjaránin, ekki bara þau sem voru á Íslandi heldur í sögulegu samhengi enda stóðu þessi sjórán í fleiri aldir. Í lokin sagði hann frá nútíma þrælasölu, en hún er miklu meiri og ábatasamari í dag en fyrir fjögur hundruð árum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON