Námskeiðið „Konur á besta aldri - fæða og flóra skipta máli“ verður haldið á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands á fimmtudaginn. Á námskeiðinu er fjallað um fæðu og þarmaflóru í tengslum við breytingaskeið kvenna. Fæðuval hefur áhrif á örveruflóru meltingarfæranna. Farið er yfir hvernig röskun á þessari mikilvægu flóru getur stuðlað að hitakófum og svitaköstum og haft áhrif á svefn og andlega líðan. Við fengum Birnu G. Ásbjörnsdóttur, MSc í næringarlæknisfræði til að koma í þáttinn og segja okkur meira frá þessu.
Fyrir nokkrum árum kom upp hugmynd á Hólmavík að halda hátíð sem bæri nafnið Hörmungardagar til mótvægis við sumarhátíðina sem heitir Hamingjudagar. Hörmungardagarnir verða um næstu helgi og Kristín Einarsdóttir fékk Jón Jónsson þjóðfræðing og aðalhvatamann hátíðarinnar til að segja sér frá.
Hildur Jónsdóttir heilsuráðgjafi, stofnandi og ritstjóri Heilsubankans, þjáðist af fjölda sjálfsónæmissjúkdóma og öðrum krónískum kvillum, sem bæði voru meðfæddir og áunnir. Hún var meðal annars með alvarlega vefjagigt, mjög slæmt mígreni, stoðkerfisverki, gífurlegt orkuleysi, slitgigt, liðagigt margt fleira sem hægt væri að telja upp.Þær raddir sem mættu henni í heilbrigðiskerfinu sögðu henni að hún yrði að sætta sig við stöðu sína og finna leiðir til að lifa með vandanum. Hildur átti erfitt með að kyngja þessum skilaboðum og vildi ekki gefast upp. Hún sagði okkur frá leiðinni sem færði henni bata í þættinum í dag.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON