Fjórði leiðtogafundur í sögu Evrópuráðsins, sá fyrsti síðan 2005, hefst í Hörpu í dag. Hátt í fimmtíu þjóðarleiðtogar, sem stýra löndunum í álfunni okkar, ætla að hittast í Hörpu í Reykjavík, eftir að hafa flogið misflott frá hinum og þessum löndum og keyrt í glænýjum Audium eftir lokuðum strætum miðborgarinnar, undir vökulum augum sérþjálfaðra og þungvopnaðra lögreglumanna og kvenna. Þau ætla að ræða málin, með það að markmiði að koma á friði í Evrópu, draga Rússa til ábyrgðar fyrir glæpi sína og almennt stilla saman strengi. Þau enda á að undirrita The Reykjavik Agreement, Reykjavíkursáttmálann, sem íslensk stjórnvöld vona að fari í sögubækurnar. Sunna Valgerðardóttir og Oddur Þórðarson halda áfram spjalli sínu um Leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í þessum seinni þætti Þetta helst um fólkið sem er að heimsækja Ísland.