Næstu fimmtudaga munum við fá leikhússtjóra í spjall til að segja okkur frá leikvetrinum sem er að hefjast. Þetta hafa auðvitað verið sérstakir tímar og nú krossum við fingur fyrir framhaldinu. Fyrstur í röðinni varMagnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóra hann kom í þáttinn og sagði frá leikárinu sem er að hefjast í Þjóðleikhúsinu.
Svo fengum við Úlfar Jónsson, margfaldan íslandsmeistara í golfi, golfkennara og fyrrverandi landsliðsþjálfara í golfi í spjall. Golfið er ein vinsælasta íþróttin á Íslandi, yfir 20 þúsund kylfingar eru skráðir í 62 golfklúbba á landinu og mun fleiri stunda íþróttina á hverju ári. Við veltum fyrir okkur íþróttamennsku í golfi. Reglulega rata mál tengd bestu kylfingum í heiminum í fréttirnar vegna framkomu þeirra á vellinum, deilna milli einstakra kylfinga eða jafnvel ef upp koma mál þar sem efast er um heiðarleika þeirra og hegðun á vellinu. Það er að miklu leyti lagt í hendur kylfinganna sjálfra að dæma í eigin málum á meðan á golfhring stendur til þó dómarar séu vissulega til staðar á stórmótum. Það eru auðvitað gríðarlegur fjöldi myndavéla á stórmótum og fátt sem fer fram hjá þeim. Mörg dæmi eru um það að áhorfendur hafi séð eitthvað í útsendingu sem dómarar á vellinum hafi ekki áttað sig á, og eftir ábendingar áhorfenda hafa kylfingar fengið refsingu í kjölfarið. Ef kylfingar verða uppvísir að svindli, eða óheiðarleika eða óíþróttamannlegri hegðun framkomu þá getur verið erfitt að losna við það orðspor og jafnvel fylgir það þeim það sem eftir er ferilsins, burtséð frá þeim árangri sem þeir ná. Nú síðast sauð uppúr í óvenju harðri deilu milli tveggja leikmanna á PGA mótaröðinni, þar sem aðdáendur annars þeirra þjörmuðu svo að hinum að upp úr sauð og í kjölfarið loguðu samfélagsmiðlar og ekki sér fyrir endann á því máli. Við ræddum það mál í dag við Úlfar og rifjuðum upp nokkrar sögur af sama meiði í þættinum í dag.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON