Franska kvikmyndin Grâce à Dieu eða Guðsmildi er sýnd um þessar mundir í Bíó paradís. Hún fjallar um stórt barnaníðsmál sem kom upp hjá kaþólsku kirkjunni í Frakklandi þar sem upp kemst um áratugalangan brotaferil kaþólsks prests gegn ungum drengjum og viðbrögðum stjórnenda kirkjunnar, samfélagsins og kerfisins. Þóra Tómasdóttir fjölmiðlakona hefur skoðað mynstur innan kaþólsku kirkjunnar, hvernig kirkjan hefur brugðist við þegar svona mál koma upp, til dæmis hér á landi. Þóra kom í þáttinn.
Út er komin bókin „Það eru ekki svellin“eftir Gunnar Finnsson - Sögur og sagnir af Borgfirðingum eystri. Þar segir til dæmis frá Kristjáni á Jökulsá sem lætur sannleikann ekki eyðileggja góða sögu. Sveinbjörn á Dallandsparti sem sólbrennur á annarri kinninni. Gömlum frænda Steins Ármanns sem er gefið Viagra á elliheimilinu. Jóa í Geitavík sem vantar hundraðkall og Sveini á Hóli sem getur alveg legið á beru gólfinu, en þó með einu skilyrði. Gunnar kom í þáttinn í dag.
Störf dýralækna eru mjög umfangsmikil og í mörg horn að líta og Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, fékk á dögunum dýralækninn sem sinnir norðvesturumdæmi, Gísla Sverri Halldórsson, í heimsókn til sín í Hveravík og ræddi við hann meðal annars um starf dýralæknisins, mikilvægi sóttvarna og ýmislegt annað.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON