Föstudagsgestur þáttarins í þetta sinn var leikarinn Þröstur Leó Gunnarsson en hann á einmitt sextugsafmæli í dag. Þröst Leó ættu nú flestir að þekkja úr ótal sviðsverkum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Eins og skepnan deyr, Perlur og svín, Tár úr steini, Nói albínói, Reykjavík-Rotterdam og Síðasta veiðiferðin, til að nefna nokkrar kvikmyndir og það væri bara til að æra óstöðugan að reyna að telja upp eitthvað af ógrynni hlutverka sem hann hefur leikið á leiksviðum leikhúsanna. Við fengum að heyra skemmtilegar sögur úr æsku hans, sögur úr sjómennskunni, úr æsku hans á Bíldudal, leiklistinni og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag.
Í matarspjalli dagsins ræddi Sigurlaug Margrét um grjúpán, eða sperðla, sem eru kannski betur þekkt sem bjúgu. Af hverju eru þau svona góð? Hvernig bjúgu eru í uppáhaldi hjá henni og hvað er best að hafa með þeim og eru bjúgu svokallaður sumarmatur?
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON