Á laugardaginn opnaði myndlistarsýningin Skynleikar á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Sýningin hefur það metnaðarfulla markmið að brjóta niður stigveldi skynfæranna, með því að virkja skynfæri önnur en sjónina í upplifun á myndlist. Með sýningunni vildu sýningarstjórar Skynleika, þær Ásdís Þula Þorláksdóttir og Björk Hrafnsdóttir, gera listræna upplifun aðgengilega þvert á samfélagið, óháð sjón, þannig að fólk, hvort sem það er full sjáandi, sjónskert eða blint eigi þess kost að upplifa listverk á fullnægjandi hátt.
Tove Ditlevsen er einn ástsælasti höfundur Dana og bækur hennar þykja í dag gefa einstaka mynd af reynsluheimi kvenna á síðustu öld. Verkum hennar var strax vel tekið af lesendum en hún fékk oft slæma útreið hjá gagnrýnendum, þá fyrst og fremst fyrir að skrifa of opinskátt um sitt eigið líf. Tove skrifaði meðal annars um fátækt og ástir utan hjónabands, þungunarrof, móðurhlutverkið, fíkn og þunglyndi. Bókin Gift, sem kom nýverið út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur, er sjálfsævisöguleg og fjallar um hennar fyrstu skref sem rithöfundur, á sama tíma og hún stofnar til fjögurra hjónabanda og kynnist fíkniefnum í fyrsta sinn, en þau áttu eftir að fylgja henni út lífið. Þórdís verður gestur Víðsjár í dag.
Guðbergur Bergsson fagnaði nítíu ára afmæli í gær. Guðbergur hefur verið tíður gestur hér í Ríkisútvarpinu auk þess að hafa stundað hér dagskrárgerð og lesið inn heilu verkin. Við kíkjum í safnið og finnum eitthvað óvænt í tilefni afmælis skáldsins.