Tryggvi Helgason barnalæknir og sérfræðingur í offitu barna kom í þáttinn í dag. Hann sagði okkur frá stefnubreytingu, sem eru að verða í Evrópu og Ameríku í meðferðarúrræðum gegn offitu bæði hjá börnum og fullorðnum. Tryggvi fræddi okkur um stöðuna í dag og þróun í þessum málum í nánustu framtíð, hvað varðar meðferðarúrræði, þróun og notkun lyfja og aðgerðir og hvort og hverjar mögulegar hættur væru við þessum úrræðum.
Það hefur komið fram í fréttum að Fellabakarí á Héraði hefur hætt starfssemi og það var eina bakaríið sem var starfandi þar. Hver á að baka 20 þúsund bollur fyrir austfirðinga er spurning sem við höfum líka séð í fjölmiðlum. Sesam brauðhús er lítið handverksbakarí á Reyðarfirði og við hringdum þangað og athuguðum hvort þau geti annað eftirspurninni. Valur Þórsson er yfirbakari þar og var á línunni í þættinum.
Við fengum svo póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Það eru liðin 50 ár frá því að gos hófst í Eyjum og þess var minnst með ýmsum hætti þann 23. janúar síðastliðinn. Magnús var í Eyjum kvöldið fyrir gos en var farinn út á sjó áður en það byrjaði og hann segir frá þeirri skelfilegu upplifun að fá fréttirnar beint í æð í gegnum radíóið þessa örlagaríku nótt. Hann segir líka frá komandi goslokahátíð en þá verður afhjúpaður minnisvarði Ólafs Elíassonar um gosið. Hann spurði einnig í ljósi þess að enginn minnisvarði er um Tyrkjaránið í Eyjum, hvað eigi að gera þegar 400 ár verða liðin frá ráninu árið 2027.
Tónlist í þættinum í dag:
Kling klang / Dátar (Þórir Baldursson og Ólafur Gaukur Þórhallsson)
Going up the Country / Canned Heat (Alan Wilson)
Girl from Before / Blood Harmony (Örn Eldjárn)
Háa C / Moses Hightower (Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR