Jórunn Sigurðardóttir segir frá tilnefningum til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari verður tekin tali um efnisskrá á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna sem fram fara í Seltjarnarneskirkju á laugardag. Hallfríður hefur mikið velt fyrir sér tónlistarsögunni að undanförnu, hvernig ákveðin nöfn hafa þar verið hafin til vegs og virðingar á meðan önnur hafa fallið í gleymskunar dá, en á tónleikunum verða flutt í fyrsta sinn á Íslandi verk úr smiðju Fanny Mendelssohn, Joseph Bologne, Alice Mary Smith og Emilie Mayer. Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi fjallar í dag um skáldsöguna Valdimarsdagur eftir dansk-norska rithöfundinn Kim Leine en bókin kom nýlega út í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Gunnar Kvaran sellóleikari segir frá tónleikum sem haldnir verða í Hannesarholti á sunnudag, þar frumflytja þau Gunnar og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari nýtt verk eftir tónskáldið John Speight en hann fagnar 75 ára afmæli í næstu viku. Og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands, heldur áfram að horfa til vesturs eins og hún hefur gert í Víðsjá undanfarna fimmtudaga í febrúar. Í dag fer hún með hlustendur í ferðalag til mið-Ameríku, og Mexíkó, og talar meðal annars um flóttamenn.