Í Víðsjá dagsins verður hugað að fræðslustarfi íslenskra safna þegar Alma Dís Kristinsdóttir verður tekin tali en hún varði fyrir síðustu helgi doktorsritgerð sína í safnafræði við Háskóla Íslands þar sem hún hefur greint þróun í faglegri nálgun í fræðslumálum safna á síðstu árum og horft til framtíðar hvað þau mál varðar. María Kristjánsdóttir fjallar um leiksýninguna Ör (eða Maðurinn e eina dýrið sem grætur) sem nú er til sýninga í Þjóðleikhúsinu en verkið er byggt á skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur frá árinu 2016. Hlustendur heyra einnig af bók vikunnar sem að þessu sinni er Krossfiskar, skáldsaga Jónasar Reynis sem út kom á síðasta ári, höfundur verður tekinn tali og les úr bók sinni. Einnig verður í Víðsjá í dag hugað að umhverfishugvísindum, og spurt hvort hugvísindi geti gert gagn þegar kemur að hinum stóru vandamálum sem samtíminn stendur frammi fyrir. Umhverfishugvísindi er fræðasvið sem hefur verið í örum vexti á undanförnum árum en um er að ræða samnefnara fyrir allar greinar húmanískra fræða sem fást við umhverfismál að staðaldri. Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur er einn þeirra íslensku fræðimanna sem hafa lagt stund á þessi fræði, hann heldur erindi í Snorrastofu í Reykholti eftir helgina þar sem hann skoðar meðal annars fornsögur frá sjónarhorni umhverfishugvísinda, rætt verður við Viðar í þætti dagsins.
Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.