Við völdum á hverjum degi í sumar blóm dagsins í þættinum Sumarmálum, sem varð gjarnan tilefni til þess að við ræddum íslensku plöntunöfnin. Á http://floraislands.is/ eru skráðar gríðarlega margar plöntur og áhugaverðar upplýsingar um þær og bara það að renna yfir nafnalistann er virkilega skemmtilegt. Íslensku plöntunöfnin eru falleg, fyndin, skrýtin og og umfram allt forvitnileg. Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur kom í þáttinn og fræddi okkur um íslensk plöntunöfn, uppruna þeirra, alþýðuheiti nýjunar í plöntugreiningu og fleira. Við spurðum að lokum Guðrúnu um blómasamstæðuspilin sem hún hefur gefið út, en þau geta hjálpað fólki að læra um flóru Íslands.
Við höfum heyrt talað um að bólgur í líkamanum geti verið orsök ýmissa sjúkdóma. Við ræddum við Önnu Rósu Róbertsdóttur grasalækni um íslenskar lækningajurtir og hvað við getum gert sjálf í því að þekkja læningarjurtir og til að efla heilsuna og minnka bólgur.
Ása Baldursdóttir kom svo í þáttinn í dag og sagði okkur frá áhugaverðum hlaðvarpsþáttum og sjónvarpsefni. Í þættinum í dag sagði Ása okkur frá hlaðvarpinu Bad Bad things þar sem framhjáhald veldur andláti tveggja kvenna, þar sem ekkert eins og það sýnist í fyrstu. Annað hlaðvarp sem heitir Scamfluencers þar sem svikahrappar af ýmsum gerðum og áhrifamáttur sannfæringakraftsins fær að njóta sín. Auk þess sagði Ása okkur frá átakanlegri heimildarmynd, Girl in the Picture , þar sem uppruni stúlku sem finnst látin fær nýja og hrollvekjandi merkingu.
Tónlist í þættinum í dag:
Gling gló / Björk Guðmundsdóttir og Tríó Guðmundar Ingólfssonar (Alfreð Clausen og Kristín Engilbertsdóttir Clausen)
Í bláum skugga / Stuðmenn (Sigurður Bjóla Garðarsson)
Bona Fide / Krummi Björgvinsson og Soffía Björg (Oddur Hrafn Björgvinsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON