Talið er að 500 til 600 sjálfsvígstilraunir séu gerðar á Íslandi árlega og að á milli 30 til 50 manns deyja á ári vegna sjálfsvígs. Heimildarmyndin Út úr myrkfinu miðlar reynslu aðstandenda sem hafa misst ástvin, sem tekið hefur eigið líf, og hvernig þau hafa komist út úr myrkrinu. Hjónin Helgi Felixsson og Titti Johnson gerðu myndina og Helgi kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá myndinni, ferlinu, sögunum sem í henni eru og mikilvægi umræðunnar um sjálfsvíg.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag og í póstkorti dagsins sagði Magnús frá þýsku borginni Dresden, en þar er hann staddur núna í lystiferð. Hann sagði frá Ágústi sterka sem gerði Dresden að einni helstu menningarborg Evrópu á átjandu öld. Hann sagði líka frá loftárásunum sem voru gerðar á borgina í lok seinni heimstyrjaldarinnar, en margir telja að þær hafi verið stríðsglæpur. Í lokin sagði Magnús líka af Vladimir Putin sem bjó í Dresden þegar hann var kontoristi á vegum KGB á Sovéttímanum.
Og þar sem það er síðasti virki dagurinn fyrir páska í dag, einskonar föstudagur, þá fengum við Sigurlaugu Margréti, besta vin bragðlaukanna, til þess að koma í matarspjall í dag. Þar ræddum við um páskamat og aðallega páskalambið. En einnig kom við sögu föstudagurinn langi og rósmarín.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON