Við kíktum í heimsókn í Friðrikskapellu í Hlíðarenda en þar fara fram tónleikar í kvöld hjá Valskórnum. Næsta miðvikudag sameinast kórarnir Valskórinn, Fóstbræður og Karlakór KFUM á árlegum aðventutónleikum en allir eru þeir hluti af arfleið séra Friðriks Friðrikssonar. Það er óvenjulegt að íþróttafélag sé einnig með kór á sínum snærum og lengi vel var ekki vitað um aðra slíka kóra en nýlega hefur komið í ljós að í Portúgal er einn. Við hittum í Friðrikskapellu á Hlíðarenda Stefán Halldórsson, fyrrverandi formann og einn af stofnfélögum Valskórsins og Báru Grímsdóttur tónskáld.
Við fengum vinkil frá Guðjóni Helga Ólafssyni í dag eins og aðra mánudaga í haust. Hann hefur kallað sig skúffuskáld og þjóðfræðiáhugamann úr Flóanum og í dag lagði Guðjón vinkilinn upp að tunglferðum og kalda stríðinu.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og glæpasagnahöfundur. Hún reynir að nýta þau tækifæri sem gefast til að lesa bækur og við forvitnuðumst í dag um hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
Tónlist í þættinum í dag:
Nú minnir svo ótal margt á jólin / Diddú, Björgvin Halldórsson og Hljómkórinn (Meredith Wilson og Jónas Friðrik Guðnason)
En röd for alt det söte / Kari Bremnes (Kari Bremnes)
Snæfinnur snjókarl / Björgvin Halldórsson (Steve Nelson, Jack Rollins og Hinrik Bjarnason)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR