Í dag ákváðum við að tala um veðrið, enda hefur það undanfarið virkilega látið til sín taka hér á landi. Við ákváðum því að læra smá almenna veðurfræði og túlkun veðurspáa. Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands, kom í þáttinn í dag. Hún er einmitt að kenna almenna veðurfræði og túlkun veðurspáa á námskeiði á vegum Endurmenntunar HÍ, sem er ætlað öllum sem hafa áhuga á veðri og veðurfræði. Elín Björk fræddi okkur um veður og veðurspár í þættinum í dag.
Heildræn nálgun á andlega heilsu er rauði þráðurinn í starfi Heilsu- og sálfræðiþjónustunni sem staðsett er á Akureyri. Kvíði og depurð, sorg og streita eru hluti af því að vera manneskja og mikilvægt er að taka þá líðan í sátt og einblína á hið jákvæða sem býr innra með okkur og styrkja það. Stuðningsfundir fyrir fólkið sem staðið hefur í framlínunni í heimsfaraldrinum er líka hluti af starfi þjónustunnar og þar kemur til dæmis orðið Samúðarþreyta við sögu. Við hittum Ingu Eydal hjúkrunarfræðing á Akureyri.
Ása Baldurs var hjá okkur með sitt hlaðvarps- og sjónvarpsþáttaspjall og í dag sagði hún frá heilsuhlaðvarpinu sem allir eru að tala um, og um tvennskonar ofbeldi, í vefheimum og í mannheimum. Af nógu var að taka hjá Ásu, á heimakontórnum þó, því COVID heimsfaraldurinn bankaði upp á. Hún talaði í þættinum um hlaðvarpsþættina Maintenance Phase og Sweet Bobby, sem hægt er að finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum og sjónvarpsþættina The Puppet Master sem eru á Netflix.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON