Landssamband eldri borgara hefur gefið út bækling um velferðartækni sem kallast Velferðartækni - gagnast hún mér? Bæklingurinn er fyrst og fremst ætlaður eldra fólki og til upplýsingar um hvað velferðartækni er og hvernig fólk getur nýtt sér hana til að gera sér lífið auðveldara og þægilegra. Við fengum Guðrúnu Ágústsdóttur, verkefnastjóra bæklingsins til þess að koma í þáttinn og segja okkur frá velferðartækninni.
Þorsteinn Guðmundsson, leikari, grínari, meistaranemi í klínískri sálfræði og skólastjóri Bataskólans, kom í þáttinn og ræddi breyskleika sína og manneskjunnar og veltir upp stórum spurningum sem snúa að mannlegu eðli og því að vera manneskja. Í dag velti hann fyrir sér undirmeðvitundinni, eða dulvitundinni og fleiru.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og myndlistarmaður. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON