Fyrr í þessum mánuði kom nýjasta afsprengi píanóleikarans Víkings Heiðars Ólafsson út hjá Deutsche Gramophone. Frá því upptökur Víkings á píanóverkum Philip Glass komu út hjá þessari virtustu plötuútgáfu heims árið 2017 hefur ferill Víkings náð sífellt hærri hæðum. Í dag er píanistinn á sífelldri ferð og flugi og hann meðal virtustu og vinsælustu píanóleikara í heiminum.
Víkingur hefur unnið náið með nokkrum af þekktustu tónskáldum samtímans, og nýjasta platan hans, sem ber titilinn From Afar, er vitnisburður um fleiri en eitt slíkt samtal. Platan er tvöföld, á henni leikur hann safn stuttra verka úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum. Þau vefur hann saman í eina heild, og úr verður eins konar svipmynd af listamanninum sjálfum.
Víkingur Heiðar Ólafsson kemur í hljóðstofu Víðsjár í dag, segir okkur af plötunni From afar, frá kynnum sínum af ungverska tónskáldinu György Kurtág, lífi hins annasama konsertpíanista og leitinni að litum og ljóðum í tónlist.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir