Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag var leikarinn og grínarinn Vilhelm Neto. Hann hefur gert garðinn frægann undanfarin ár, aðallega í gríni, flestir ættu að muna eftir honum úr tveimur síðustu áramótaskaupum, þar sem hann meðal annars lék manninn sem ætlaði að halda í sér andanum í gegnum Covid og svo Gunnar á Hlíðarenda í Hollywood útgáfunni að Njálu. Það var gaman að ræða við hann um æskuna og uppvöxtinn, bæði í Portúgal og á Íslandi, en faðir hans er portúgalskur. Við ræddum einnig um leiklistina og námið í Danmörku, gamanefnið á samfélagsmiðlum og svo hvernig hefur gengið eftir að hann kom aftur til landsins úr námi.
Sigurlaug Margrét kom svo að sjálfsögðu til okkar í dag í matarspjall dagsins. Við fengum Villa Neto, föstudagsgest Mannlega þáttarins, til að sitja áfram með okkur og ræða við okkur um mat. Þar var portúgalskur matur fyrirferðamikill, saltfiskur, kolkrabbi, djúpsteiktar sardínur, djúpsteiktur áll og kýldar kartöflur.
UMSJÓN ÞORGERÐUR ÁSA AÐALSTEINSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON