Vísindaskáldverk, bækur og kvikmyndir, segja til um hvernig framtíð sagnalistamenn sáu fyrir sér í ljósi þeirrar vísindaþekkingar sem þeirra samtími bjó yfir. Mörg þessara verka hafa reynst furðu sannspá. Vísindafélag Íslands efnir til málþings um vísindaskáldskap og vísindaþekkingu þar sem raunvísindamenn og hugvísindamenn ræða vísindaskáldskap og þær samfélagsáskoranir sem vísindaskáldskapurinn sá fyrir og eru nú raunveruleiki sem þarf að bregðast við. Við fengum Ernu Magnúsdóttur, lífeindafræðing og formann Vísindafélagsins til að segja okkur frá því sem þarna fer fram.
Lesandi vikunar var Inga Ósk Ásgeirsdóttir íslenskukennari í Borgarholtsskóla í Reykjavík. Vinnu sinnar vegna les hún mikið og hefur sterka skoðun á bókmenntum og í spjalli við hana kemur til dæmis fram hver skoðun hennar er á svokölluðum skvísubókmenntum. Inga ólst upp í Kópavogi og telur vanta tilfinnanlega fleiri skáldsögur sem sviðsettar eru í því bæjarfélagi. Við ræddum við Ingu um bóklestur og hvernig það gengur að kveikja áhuga á sígildum bókmenntum hjá ungum nemendum hennar í Borgarholtsskóla.
UMSJÓN DAGUR GUNNARSSON OG GUNNAR HANSSON