Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári. Kraftur er með vitundarvakningu og fjáröflunarherferð í gangi þessa dagana og stendur átakið til 4. febrúar. Markmið herferðarinnar er að vekja athygli á hversu marga krabbamein hefur áhrif á. Það er t.d. verið að selja húfur til styrktar félaginu og starfsemi þess sem og afla styrkja fyrir félagið. Við ræddum í dag við Jóhann Björn Sigurbjörnsson, 25 ára, en hann greindist með eitlakrabbamein á síðasta ári og Lindu Sæberg, sem situr í stjórn Krafts og hefur sjálf greinst með brjóstakrabbamein.
Þann 1. desember sl. fagnaði Oddafélagið 30 ára afmæli sínu, reyndar með mjög látlausum hætti vegna fjöldatakmarkana en fagnaði engu að síður. Félagsmenn Oddafélagsins eiga sér þá hugsjón sameiginlega að gera Odda á Rangárvöllum aftur að miðstöð menningar á Suðurlandi. Margrét Blöndal var í Odda um helgina og hitti Ágúst Sigurðsson sveitastjóra í Rangárþingi ytra, sem er jafnframt formaður Oddafélagsins, og fékk að heyra af draumum og framtíðarsýn þessa stórhuga félags.
Nú í upphafi árs leggja margir áherslu á heilbrigt líf eins og gengur gjarnan á tímamótum. Birna Þórisdóttir, næringafræðingur og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, var hjá okkur í þættinum í dag og sagði frá því að það er hægt er að koma í veg fyrir fjögur af hverjum tíu krabbameinum með heilbrigðum lífsháttum. Stærstu þættirnir eru að forðast eru tóbak, áfengi og að brenna í sólinni eða ljósabekkjum, svo er mikilvægt að hreyfa sig reglulega og borða hollt og fjölbreytt í hæfilegu magni og reyna að halda þyngdaraukningu í skefjum. Birna sagði okkur meira frá þessu í þættinum.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR