Í Víðsjá í dag verður meðal annars hugað að efnisskrá tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og rætt við ástralska tenórinn Stuart Skelton sem kemur fram með hljómsveitinni til að syngja Wesendonck ljóð Richards Wagners. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar í sjónlistapistli um stóra og glæsilega ljósmyndasýningu Ragnars Axelssonar, Þar sem heimurinn bráðnar, sem nú stendur yfir í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Hugað verður að Grettis sögu sem er kvöldsagan að Rás 1 að þessu sinni. Fluttur er lestur Óskars Halldórssonar frá árinu 1981. Örnólfur Thorsson íslenskufræðingur og forsetaritari heimsækir Víðsjá í dag og ræðir um byggingu Grettis sögu. Og bók vikunnar á Rás eitt að þessu sinni er skáldsagan Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttir sem fyrir mánuði hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þetta verk. Hér er á ferðinni sjálfsævisöguleg skáldsaga um rússíbanareið áfalla sem leiðir inn í áfengis - og vímuefnaneyslu og að endingu til þess að aðalpersónan, Védís, missir stjórn á tilveru sinni. Í umsögn dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna sagði m.a. að höfundur sýni gott vald á skáldskaparforminu, sagan einkennist af ríku myndmáli og næmni í blæbrigaðríkum texta átakanlegrar sögu. Hlustendur heyra í Elísabetu í Víðsjá í dag.