27. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er yfirstandandi en henni lýkur í lok næstu viku. Og þar fer eins og venjulega mikið fyrir háleitum markmiðum um að draga úr losun og aðgerðir kynntar til að svo verði en þetta skilar sér ekki. Losun er enn að aukast og hefur aukist frá því Parísarsamkomulagið var samþykkt 2015. En er fólk að missa trú á þessi markmið náist? Bjarni Pétur Jónsson ræddi við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra sem er á ráðstefnunni og Stefán Jón Hafstein sem skrifaði í ár bók um þessi risastóru mál og þau voru eiginlega bæði á því að þetta næðist ekki. Enda er aðaláherslan núna hjá Egyptum sem fara með formennskuna ekki á að stöðva það sem ekki verður umflúið, heldur að reyna að gera sem mest og fá alla að borðinu til að reyna að bregðast við og aðlagast þessum breytingum.
Í síðari hluta þáttarins fjallar Björn Malmquist um niðurstöður nýafstaðinna þingkosninga í Bandaríkjunum. Það er að segja þær niðurstöður sem þegar liggja fyrir. Spár um rauða bylgju Repúblikanaflokksins gengu ekki eftir og það verður kosið aftur í Georgíuríki. Björn ræðir við Magnús Þorkel Bernhardsson, prófessor við Williams College í Massachussets og Birnu Önnu Björnsdóttir, rithöfund og blaðamann sem býr í New York um kosningarnar.
Í Heimskviðum er fjallað um það sem gerist ekki á Íslandi. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.