Það hefur verið glundroði í stjórnmálunum í Perú undanfarin ár. Spilling hefur verið landlæg og mótmæli tíð. Eftir misheppnaða tilraun forseta til að leysa upp þingið í desember, og brottrekstur þessa sama forseta í kjölfarið, hefur hins vegar soðið upp úr. Fjölmenn mótmæli hafa verið barin niður af hörku og á fimmtug tug hefur látið lífið. Ástæðu þessara átaka má hins vegar rekja áratugi og jafnvel aldir aftur í tímann. Hallgrímur Indriðason fer nú yfir málið með blaðamanni í Perú og prófessor í stjórnmálafræði sem hefur skrifað fjölda bóka um stjórnmálin í landinu.
9. nóvember árið 2020 var samið um vopnahlé milli Armeníu og Aserbaísjan. Ríkin höfðu þá háð sex vikna langt stríð, það blóðugasta í áratugi, en með aðkomu Rússa náðist samkomulag um að leggja niður vopn. Nú hefur spennan aukist á ný í samskiptum Kákasus-þjóðanna tveggja. Aserar hafa sett upp vegatálma á mikilvægan veg sem liggur frá Armeníu inn í hið umdeilda Nagorno Karabakh sem hefur skapað skort á matvælum, lyfjum og orku fyrir íbúa svæðisins sem eru tæplega 150 þúsund og hætta á mikilli hungursneyð. Þeir sem standa að vegatálmunum eru umhverfisaðgerðasinnar sem mótmæla kolavinnslu á svæðinu en þegar betur er að gáð gæti málið verið flóknara en svo. Jóhannes Ólafsson tekur nú við.
Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.