Nígeríumenn fá líklega ekki þær breytingar og endurnýjun sem svo margir höfðu kallað eftir. Bola Tinubu var sigurvegari kosninganna þar í vikunni, en hann er úr sama flokki og Buhari fráfarandi forseti. Tinubu hefur verið lengi í stjórnmálum og slagorð hans í kosningabaráttunni var - nú er komið að mér. Átti að vera tákn mikilla breytinga en það er mjög ólíklegt að af þeim verði. Nígería er eitt fjölmennasta ríki heims og hefur átt í miklum efnahagserfiðleikum, þó það stefni að því að verða stærsta hagkerfi Afríku. Þar, eins og víða í Afríku, er búist við mikilli mannfjölgun á næstu áratugum. Því er spáð að árið 2070 taki Nígería fram úr Kína í fjölda barnsfæðinga. Árið 2100 verður Nígería sömuleiðis þriðja fjölmennasta land heimsins, á eftir Indlandi, sem verður í fyrsta sæti, og svo Kína.
Svo fjöllum við um umsvif Rússa í Afríku. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur á síðustu árum gert hernaðarlegt samkomulag við um tuttugu Afríkuríki og samkomulag við enn fleiri um hvers kyns auðlindavinnslu, svo sem gull- og úrangröft. En sækist Pútín eftir fleiru? Við ræddum við Steven Gruzd en hann er álitsgjafi suðurafríska ríkissjónvarpsins í alþjóðamálum. Hann segir að þær upphæðir sem Rússar fjárfesta fyrir í álfunni séu ekkert svimandi háar í samanburði við önnur lönd, en Rússar fari sínar eigin leiðir til að seilast til áhrifa.
Umsjón með Heimskviðum hafa Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.