Það kerfishrun, sem varð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum haustið 2008, er með því stærsta orðið hefur síðastliðna öld. Hrun bankakerfisins hér á landi í framhaldinu er síðan einn afdrifaríkasti atburður í Íslandssögunni. Það hefur löngum verið deilt um áhrif erlendis frá, á þá atburðarás sem leiddi til hruns íslenskra banka 2008, og þá hversu mikil þau voru. Það verður hins vegar ekki um það deilt að kreppan 2008 hófst í Bandaríkjunum og dreifðist síðan um heimsbyggðina. Það rann því mörgum kalt vatn milli skinns og hörunds í byrjun síðasta mánaðar, þegar tveir bankar féllu vestanhafs ? svo að segja í einu vetfangi ? og þegar krísan virtist hafa smitast nokkrum dögum síðar til Sviss og fest klærnar í 167 ára gamlan, sögufrægan banka með þeim afleiðingum að hann hrundi. En hvað er að gerast? Hversu alvarlegt er ástandið? Römbum við á barmi alþjóðlegs fjármálahruns, eins og 2008, eða er ekkert að óttast?
Svo fjöllum við um þingkosningar í Finnlandi sem verða á sunnudaginn. Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands berst þar fyrir pólitísku lífi sínu. Hún varð yngsti forsætisráðherra heims eftir síðustu kosningar og nýtur enn mikilla vinsælda, en þrátt fyrir það gæti ríkisstjórnin fallið, því fylgi flokksins hennar heldur ekki í við persónufylgið. Búist er við erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum en þrír flokkar eru hnífjafnir samkvæmt skoðanakönnunum og því er mikil spenna fyrir því hverjum þeirra tekst að tryggja sér mest fylgi og þar með umboð til að mynda nýja stjórn.
Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.