Í dag er dagur íslenskrar tungu, og þar með afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. Á degi sem þessum er vert að ræða stöðu tungumálsins, en eins að minnast skáldsins og það gerði dagskrárgerðarmaðurinn Bergsteinn Sigurðsson fyrir nokkrum árum síðan svo eftir var tekið.
Við skellum okkur til Aþenu í Grikklandi og heyrum í tveimur af skipuleggjendum listahátíðarinnar Head to head sem lauk um helgina en fjöldi íslenskra listamanna sýndi þar verk sín eða kom fram.
Skýið, gervihnettir, 5g, þráðlaust. Í hugum okkar er internetið svo loftkennt og óefnislegt. En í raun og veru er það bara ein stór flækja af snúrum, þráðum, strengjum, köplum, sendum, tölvum. Í gær lögðum við af stað í leiðangur að finna internetið, og í dag höldum við áfram að reynda að sjá það með eigin augum og athuga hvort við getum snert það. Í gær var það ljósleiðaranetið innanlands, en nú leitum við uppi sæstrenginn sem tengir íslenska internetið við umheiminn.