Magnús Jóhann Ragnarsson, píanóleikari og tónskáld, er á mikilli siglingu um þessar mundir. Önnur sólóplata hans, Without Listening, kom út undir lok síðasta árs. Ásamt því að vera virkur í djasssenunni hefur hann tekið þátt í að skapa margar vinsælustu plötur undanfarinna ára í íslensku poppi. Í Lestinni í dag heimsækjum við Magnús Jóhann í hljóðverið hans og spjölluðum um nýju plötuna.
Leirtauið hrúast nú upp á heimili Tómasar Ævars Ólafssonar. Uppvaskið er leiðinlegasta húsverkið að hans mati og í stað þess að ráðast á hrúguna með burstann á lofti hefur hann ákveðið að vinna þrjú innslög fyrir lestina um uppvask. Í síðustu viku fjallaði hann um uppvask sem hluta af kynjaðri vinnu á heimilinu. En nú er komið að aðferðafræðinni, Margrét Dórótea Sigfúsdóttir, skólameistari hússtjórnarskólans, gefur Tómasi leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að við uppvaskið.
Og við heyrum um sambandsslit í stjörnuheimum, ein frægustu hjónakorn heims virðast hafa gefist upp á hvoru öðru. Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian hefur sótt um skilnað frá rapparnum Kanye West. Meira um það á eftir. En við ætlum að byrja Lestina þessa vikuna á smá hlýju í hjartað, við byrjum á tónlist.