Við verðum með hugann við bandarískar bókmenntir og tónlist í dag. Tom Verlaine, söngvari, gítarleikari og lagasmiður bandarísku rokksveitarinnar Television lést um helgina 73 ára. Sveitin spratt upp úr pönksenu í New York á áttunda áratugnum í kringum staðinn CBGB ásamt hljómsveitum eins og Talking Heads, Patti Smith, Blondie og Ramones. Television var ekki langlíf en gríðarlega áhrifamikil, og fyrsta plata þeirra Marquee moon ratar á flesta lista yfir bestu og áhrifamestu plötur allra tíma. Við ræðum um þessa merkilegu hljómsveit og höfuðpaur hennar við Gunnar Jónsson tónlistarmann.
Við kynnumst bandaríska rithöfundinum Nellu Larsen, sem skrifaði bækur og smásögur á þriðja áratug tuttugustu aldar. Larsen ólst upp í Chicago hjá danskri móður en faðir hennar var frá Jómfrúareyjum, fyrrum þrælanýlendu Dana. Bækur hennar lýsa þeirri upplifun að vera dökk, ekki hvít en ekki nógu svört til að tilheyra samfélagi svartra. Sólveig Ásta Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur heimsækir Lestina og segir frá þessum áhugaverða höfundi.