Fyrr í vikunni var nýr keisari krýndur í Japan. Akihito keisari, sagði sig frá völdum í apríl síðastliðnum og sonur hans Naruhito tekur nú við. Hátíðin fór fram eftir árþúndagömlum hefðum með ýmis konar táknum og ritúölum. Sakauppgjöf, umræður um kynjajafnrétti og frestaðar skrúðgöngur vegna fellibyls hefur verið meðal þess sem hefur einkennt krýninguna að þessu sinni. Í Lestinni í dag hringjum við til Japan og fræðumst um japanska keisarann og þessa veglegu athöfn. Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands, er í Tokyo.
Við kynnum okkur deilur um Libra, nýjan gjaldmiðil sem Facebook ætlar að setja í loftið á næstunn, og athyglisverðar umræður í þingnefnd Bandaríkjaþings um málið.
Tilvistarkreppa mæðgna á Akranesinu er viðfangsefni nýrrar íslenskrar kvikmyndar, Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur. Kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar, Marta Sigríður Pétursdóttir, rýnir í myndina.
Bandaríska tónlsitarkonan Lana Del Rey gaf út nýja plötu nú í haust. Norman Fucking Rockwell heitir platan og hefur fengið prýðilegar viðtökur. Davíð Roach Gunnarsson hefur verið að hlusta og fjallar um plötuna í þætti dagsins.