Í byrjun vikunnar kom út platan Indigo með tónlistarmaðnninum og plötusnúðinum Exos. Þetta er fyrsta plata hans í 20 ár, en Exos er gamalreyndur í hinni alþjóðlegu teknósenu. Við heyrum í Adda Exos sem er fastur í Víetnam vegna Covid-19 ástandsins, þar sem hann stoppaði í miðju tónleikaferðalagi um Asíu.
Áhorfendur spila stórt hlutverk í að skapa stemningu og rafmagnað andrúmsloft á íþóttavöllum. Nú þegar íþróttakeppnir hefjast aftur víða um heim eftir covid-hlé er hins vegar leikið fyrir tómum leikvöngum vegna sóttvarna. Á völlunum hljóma því engir söngvar, enginn trommusláttur, ekkert baul, engin vonbrigðaandvörp, engin fagnaðarlæti. Hins vegar reyna nú margir að finna nýjar leiðir til að skapa stemningu án áhorfenda. Við ræðum við Guðjón Má Guðjónsson, framkvæmdastjóra OZ, sem vinnur að einni slíkri lausn.
Síðustu dagar og nætur hafa reynst mótmælendum í Bandaríkjunum erfiðir. Mörg hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hendi lögreglu og hvítra ofstækismanna, verið lamin með bareflum, sprautuð með táragasi, skotin með gúmmíkúlum og fangelsuð. Í gær þurftu skipuleggjendur síðan að draga andann djúpt þegar samfélagsmiðlaherferðin #blackouttuesday tók á sig óumbeðna mynd er velmeinandi stuðningsmenn svartra Bandaríkjamanna drekktu upplýsingagjöf undir myllumerkinu #blacklivesmatter í svörtu tómarúmi. En fyrir hvert skref aftur á bak skulu tvö tekin fram á við og málstaðnum hefur borist liðsinni úr óvæntri átt. Nefnilega, frá unnendum K-Pops.